Krítík
Galdrabók Ellu Stínu
Ella Stína’s Magicbook

Imagination and fantasy are what characterize this book. Here is an author with masses of creative talent and great sensitivity for human emotions, and it is no handicap that a rich sense of humour keeps shining through even if the subject material is deadly serious... Her fantasy stories are a compelling creation, and the absurdism seems to suit her style and her subject material perfectly.

Guðbjörn Sigurmundsson, Mál og Menning 1993
FIMM STJÖRNU DÓMUR UM ENGINN DANS VIÐ UFSAKLETT, ljóð 2014

Í ljóðabókinni Enginn dans við Ufsaklett segir frá ástarsambandi sem fór út um þúfur. Ljóðmælandinn stendur utan við atburðina og gaumgæfir þá í þremur köflum, tilhugalífið, sambúðina og skilnaðinn, og undrast öll viðvörunarmerkin (hann er ofbeldismaður og þetta á aldrei eftir að ganga, skrifað með blikkandi jólaseríu) sem voru markvisst hunsuð því konuna langaði svo skelfing mikið að eignast kærasta.



Það er sérkennilega tær sársauki í textanum, en með fjarlægðinni verða sumir atburðirnir sem lýst er kómískir. Enginn dans við Ufsaklett er því bráðfyndin á köflum, þessi sérstaka ísmeygilega kímni sem Elísabet Jökulsdóttir hefur gert að vörumerki sínu er áberandi. Að segja frá átakanlegum hlutum svo blátt áfram og eðlilega að þeir verða eiginlega drepfyndnir. Sýlindermaðurinn kjarnar þetta ágætlega:



Ljóðmælandi áttar sig á blindu sinni, sýlinderinn er svo augljóst tákn um það að maðurinn sé bad news (og þar að auki hafa konur skipt um sýlinder, ekki bara einu sinni!). Dyramyndin er líka endurtekin í bókinni, konan hleypir manninum inn um sínar dyr (og lofar að skipta ekki um sýlinder) en lokast sjálf inni. „Kannski vissi ég ekki hvar dyrnar voru“ segir hún strax á fyrsta degi. (13) Dyr og lyklar koma oft við sögu, enda býður ástfangna konan manninum að búa hjá sér fljótlega eftir að hún opnar hjarta sitt fyrir honum og megnar ekki að biðja hann um að skila lyklinum. Hún leitar ítrekað að dyrum fyrir sjálfa sig, útgönguleiðinni, en hana er erfitt að finna. Hamingjan er stundum nálæg, villt og óhamin, en geðveikin líka alltaf skammt undan, með algera örvæntingu og niðurbrot í farteskinu.



Teikningarnar eru gerðar af höfundi sjálfum, naívar og sterkar. Þær ríma einkar vel við ljóðin, en teprur munu vísast hrökkva í kút þar sem píkur eru þar í öndvegi. Tenntar og gróteskar píkur sem gleypa, bljúgar og sætar píkur sem gráta. Ástin og sársaukinn eiga upptök sín og endalok í píkunni og viðkvæmni hennar og styrkur eru í brennidepli.



Þetta nýjasta verk Elísabetar Jökulsdóttur hefur X-faktorinn í risaskömmtum. Þetta „eitthvað“ sem gerir það að verkum að sum bókmenntaverk heilla meira en önnur. Textinn er óstýrilátur og ljóðin ófullkomin einsog ástin sjálf eða kannski fullkomin einmitt vegna þess hvernig þau eru. Enginn dans við Ufsaklett er társtokkin og brimsölt bók en líka ofurlétt og hressandi. Lesið hana og þið munuð heillast láta.

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, Fréttatíminn 2014
Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett

Lífið er enginn dans á rósum í ljóðabók Elísabetar Kristínar Jökulsóttur, Ástin ein taugahrúga. Enginn dans við Ufsaklett. Ljóðin lýsa á óvenju opinskáan og einlægan hátt ástarsambandi ljóðmælanda við ofbeldismann og hvernig hún festist í þráhyggju og ástarfíkn.



Þetta er ljóðabálkur í þremur hlutum sem byrjar í tilhugalífinu og endar með skilnaði. Átakanleg en jafnframt fyndin saga sem afhjúpar veikleika beggja aðila í þessu sjúka ástarsambandi. Teikningar höfundar gefa verkinu kynferðislegan undirtón þar sem píkan er miðlæg uppspretta girndar og kvalar konunnar. Ljóðmælandi þráir ástina og er haldin ástarfíkn og fær stöðugt viðvörunarmerki um að maðurinn, sem hún hefur ákveðið að fá með sína „sambúð hvað sem það kostaði“, sé ofbeldismaður. Hún ber kennsl á viðvörunarmerkin en hunsar þau og tapar sér í ástarfíkn.



Ljóðmælandi skoðar ferlið úr fjarlægð með írónískum augum, hissa á því að hafa ekki losað sig úr þessum ástarfjötrum fyrr og spyr: „Kannski vissi ég ekki hvar dyrnar voru?“

Frá dómnefnd í flokki fagurbókmennta / Fjöruverðlaunin 2015
Skemmtileg umfjöllun um Ufsaklett

Góðu vinir. Ingunn gaf mér ljóðabókina eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur sem heitir "Ástin er ein taugahrúga - Enginn dans við Ufsaklett". Ég las hana í tveimur rykkjum. Þetta er frábær bók og óvenjuleg af ljóðabók að vera (fyrir mína parta a.m.k.) því hún er mjög auðskiljanleg og meir að segja spennandi. Mann langar að vita hvað gerist í næsta ljóði. Elísabet fékk verðlaun fyrir þessa bók og það er verðskuldað. Ég hvet ykkur til að kýla á eintak því þessi bók markar tímamót eins og þegar Kiss gaf út Alive I. Eða Mötley Crue sleppti Dr. Feelgood. Eða þegar Guns & Roses svaraði með Appetite for Destruction.

Teitur Atlason starfsmaður Gistiskýlisins við Lindargötu
Heilræði lásasmiðsins

Rithöfundur sem smeygir sér úr skáldskaparkuflinum og sest nakinn við skrifborðið til að semja skáldsögu. Einhvern veginn þannig er myndin sem kemur upp í hugann eftir að hafa lesið Heilræði lásasmiðsins eftir Elísabetu Jökulsdóttur. Hugurinn hvarflar til baka, til ársins 1951 þegar smásagan Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns birtist í tímaritinu Lífi og list. Höfundurinn var skólasystir okkar Palla Steingríms, Ásta Sigurðardóttir. Sagan þótti berorð, ekki síst fyrir þá sök að höfundurinn var sjálfur stúlkan, sem allt snerist um. Sum skáld þurfa ekki að skrifa nema eina sögu eða eitt ljóð til að slá í gegn. Umrædd smásaga Ástu var í þeim gæðaflokki.



Þær Ásta og Elísabet eiga svo ótal margt sameiginlegt finnst mér, bæði sem rithöfundar og persónur þótt stíll þeirra sé gerólíkur og sný ég mér þá að þeirri síðarnefndu og síðustu skáldsögu hennar:



Elísabet er blessunarlega laus við sýndarmennsku og hún er ekki þrúguð af innri sektar-kennd þegar hún fjallar um kynlíf karls og konu og lætur „almenningsálit“ „opinberra álitsgjafa“ eins og vind um eyru þjóta þegar þessi kynferðislegu samskiptamál eru við-fangsefni hennar sem rithöfundar. Samkvæmt hennar mati eru kynferðislegar athafnir fallegar, jafnvel listrænar og heilsusamlegar fyrir sálina. Morð og litríkar frásagnir af glæpamönnum, sem nú eru mjög í tísku, virðast hins vegar ekki vera hátt skrifaðar hjá höfundinum.



Elísabet hittir blökkumanninn Algea í New York, hattara og trommuleikara. Hann kemur til Íslands og dvelur hjá henni í þrjá mánuði. Meginuppistaða sögunnar er félagslegt og kynferðislegt samlíf þeirra. Frásögnin einkennist af gleði, sársauka, togstreitu og sorg. Og svo gerist eitthvað sem fær lesandann til að skella uppúr. En þessi saga hefur aðra hlið: eintal höfundar við sálina. Söguþráðurinn er alfarið bundinn samskiptum höfundar og Algea. Eintalið flettast þar inní og nær hámarki í síðari hluta sögunnar.



Smekkur þeirra sem skrifa um bækur (við getum kallað það listrænt gildismat) er mismunandi. Þetta er jafnan nauðsynlegt að hafa í huga: Eintal höfundar í þessari sögu er mjög athyglisvert og skortir þar ekkert á um líflegan stíl, forvitnilegar frásagnir eða skarplegar ályktanir. Það er hins vegar mitt mat að hinn bráðsnjalli söguþráður sé víða yfirskyggður af draumheimum höfundar eða kannski öllu frekar uppgjöri hennar sjálfrar, skýring á tilurð sögunnar, einskonar tilefnislaus afsökunarbeiðni eða eigum við að segja einskonar psycho-therapeutical viðfangsefni.

Kormákur Bragason / Tímaritið Stína
Heilræði lásasmiðsins

Einstök bók, hugrökk, falleg.

Ásdís Ólsen sjónvarpskona
Heilræði lásasmiðsins

„Ég segi bravó fyrir þessum skrifum, sleppti henni ekki eina sekúndu. Hef ekki í annan tíma lesið bók þarsem er skrifað um kynlíf á svo teprulausan hátt.“

Júlía Alexandra blaðamaður
Heilræði lásasmiðsins

Það getur verið erfitt og jafnvel vandræðalegt að skilgreina veruleikann, en segja má að það sé fyrirferðarmikið viðfangsefni nú til dags. Heilræði lásasmiðsins eru sjálfskrif Elísabetar Jökulsdóttur þar sem hún segir frá tímabili í lífi sínu og fléttar saman reynslusögum af þráhyggju, geðhvörfum, ást, einmanaleika og sársauka svo eitthvað sé nefnt.



Veruleikaleikritið er hrópandi játningarþörf, raunveruleg þörf sem ekki skyldi vanmeta. Sögurnar í þessari frásögn eru jafnt píkusögur sem fjölskyldusögur þar sem aðalfrásagan hverfist um ástarsamband við hattagerðarmann og trommuleikara frá New York. Meginstefið er einmanaleiki, ótti við hann og þráin út úr vanmætti hans. Föndrað er við maníu, ástinni lýst sem geðveiki og fortíðin birtist jafnvel sem grafhýsi. Veruleikinn á það til að rata í skáldskap og hér er skrifað af miklu öryggi um veikindi og vöntun þar sem líkami og hugur takast á. Einkarýmið er opinberað, veruleikinn holdi klæddur settur á svið. Höfundur segir skrifin vera tilraun til að komast út úr blekkingunni. Sú nýja blekking sem skapast í þessari opinberunarbók er skapandi og óþægilega heiðarleg. Það er gott flæði í textanum en þó gætir endurtekninga í efnistökum á köflum sem verða leiðigjörn, sér í lagi í sjálfslýsingum innra lífs. Húmor og íronía eru þó aldrei langt undan og því verður þessi persónulega frásögn í heild sinni skemmtileg og skondin aflestrar með grasserandi heilræðum persóna verksins, sem eru fjölskylda, vinir og annað samferðafólk Elísabetar í gegnum árin. Það er sjálfsagt að hafa eitt heilræði eftir, við ástarangist, og mæla með að fólk fái sér vatn – before and after. (163)

Soffía Bjarnadóttir rithöfundur
Heilræði lásasmiðsins

Heilræði lásasmiðsins er áleitin bók. Við fyrsta lestur virkar hún svolítið einsog vinkona á innsoginu að gera upp eftir misheppnað ástarsamband en svo koma allskonar þræðir í ljós. Þeir liggja inní þjóðarsálina og koma við kvikuna sem er samband okkar við hina. Hvort sem það er hitt kynið, annar kynþáttur, önnur þjóð, önnur menning, annar matur eða önnur hlið á okkur sjálfum...

Guðrún Helgadóttir kennari á Hólum í Hjaltadal
Laufey

What keeps [Laufey] going is her “love” for T., the cutest boy in class, who comes from an affluent family . . . By getting into the minds of these two characters Elísabet succeeds in creating a powerful atmosphere of suspense which never lets up for a moment. The reader is kept in doubt throughout the whole book. The conclusion is shocking and painful. As well as examining the thought processes of these two individuals Elísabet also tackles the wider questions of relations between people in general and the ever-widening gulf that can open, even between close relatives. Laufey is a chilling, painful and uncomfortable book, well written and deeply intense.

DV Newspaper, Sigridur Albertsdóttir
Laufey

In this poetic novel Elísabet displays a deep insight into the minds of people downtrodden by neglect and cruelty. She invokes with amazing completeness the internal world of the mentally disturbed, and reveals poetry and beauty at the heart of a gruesome thriller. She delivers a strange, while at the same time an enormously powerful and dramatic book.

Morgunbladid Newspaper
Laufey

Thus Elísabet Jökulsdóttir’s Laufey tells a story that is both old and new, yet never told before, at times using something that has been cast into the dustbin of the language, at others using something not yet invented. The story is at once girly and laddish, extraordinary and ordinary. And its seriousness is palpable.

DV Newspaper
Laufey

Laufey forces the reader to have a point of view whether he likes it or not; this is precisely what good literature should do.

TMM Magazine, Sigríður Albertsdóttir
Laufey, skáldsaga 1999

Fyrsta skáldsaga Elísabetar Jökulsdóttur er merkileg og óvenjuleg bók. Sagan er að sumu leyti einsog viðstöðulaust ljóð í óbundnu máli og þetta ljóð er bæði myndrænt og spennandi. …Það er einsog að það sé bylgja í skáldskap um þessar mundir að skrifa opinskátt um það sem er ljótt og napurt, um ofbeldi í ýmsum myndum, um kúgun og niðurlægingu í kynlífi. Allt er sagt, ekkert er skilið undan. Það er alls ekki sama hvernig slíku er lýst og Elísabet Jökulsdóttir er alveg sér á báti. Í þessari bók er hún sjáflri sér lík í því hvernig hún notar myndmálið. Það er mikið innra líf hjá persónum hennar og alveg magnað hvernig hún heldur sig alltaf inni í ævintýraheimi og barnslegu ímyndunarafli. … Þar er margt ljótt á ferð en líka fegurð þó að ótrúlegt sé í þvílíkri hrollvekju sem sagan annars er… Með þessari ljóðrænu skáldsögu sýnir Elísabet djúpan skilning á fólki sem treðst undir vegna vanrækslu og grimmdar. Hún býr til undarlega heilsteypt vitundarlíf fólks sem telst veikt á geði og hún birtir ljóðrænu og fegurð mitt í viðbjóðslegri hrollvekju. Hún sendir okkur undarlega bók en um leið geysilega kröftuga og áhrifamikla.

Hrund Ólafsdóttir, Morgunblaðinu
Fótboltasögur

Sögurnar eru þrælskemmtilegar…þær bestu…ná óvæntri dýpt og koma lesandanum í opna skjöldu með örsnöggri innsýn inn í kviku fótboltastrákanna á vellinum.

Jón Yngvi Jóhannson, DV
Fótboltasögur

Fótboltasögur hennar eru ferskar, léttar og leikandi… Í sögum Elísabetar blandast saman tvö ólík svið á nýstárlegan hátt; þær snúast um fótboltann og fáið í kringum hann en ekki síður um sálarlíf og tilfinningar, tungumál og veruleika – og þær hitta flestar í mark.

Steinunn Inga Óttarsdóttir, Morgunblaðinu
Fótboltasögur

Hún horfir á knattspyrnumanninn frá sjónarhorni sem við spekingarnir höfum aldrei spáð neitt í, og segir af honum einlægar og tilfinningaríkar sögur, sögur um boltann, sögur um lífið.

Atli Eðvaldsson, knattspyrnuþjálfari
Fótboltasögur

Fótboltasögur…bráðskemmtilegri bók sem meira hefði mátt fara fyrir á síðustu jólabókarvertíð. Að mínu mati er hún ein af perlunum sem leynast að baki metsölulistunum og bíða leitandi lesenda.

Rúnar Helgi Vignisson, DV
Dans í lokuðu herbergi

Mörg ljóðanna eru draumkennd og líka afar holdleg þótt ekki séu þau berorð. Elísabet kann vel þá list að segja mikið á milli línanna. … En í heild er hér um verk að ræða sem er að öllum líkindum upphaf merkilegs skáldskaparferils.

Jóhann Hjálmarsson, Morgunblaðinu
Dans í lokuðu herbergi

…hér er ort af opinskárri einlægni en þó jafnframt af dirfsku. … Elísabet Jökulsdóttir hefur byrjað þannig að það verður óhjákvæmilega fylgst vel með henni í framtíðinni.

esig, Tímanum
Vængjahurðin, ljóð 2003

Elísabetu tekst að birta form tilfinningarinnar að vera ástfangin í ljóðum sínum. Lýsa því hvernig manneskjan fer út fyrir eigin mörk þegar vængjahurð ástarinnar opnast.

Gunnar Hersveinn, Morgunblaðinu
Myndlistarsýning á Mokka 1994

Í örsögunum sínum og í örverkunum á Mokka nær Elísabet oft að framkalla árekstra af þessu tagi: sakleysislegar þverstæður sem eru í senn fyndnar og umhugsunarverðar.

Jón Proppé, DV
Útvarpsleikrit: Maður gefur konu eld í sígarettu og Maður spyr konu um mjólk útí kaffið

Elísabet Jökulsdóttir er leikskáld. Hún hefur sýnt það áður að hún hefur persónulega sýn á leikhús og leiktexta, hún er trú sjálfri sér og uppsker samkvæmt því. …af hversdagsleikanum, beita endurtekningum svo úr verður nánast leikrænt ljóð og flétta textann áfram áreynslulaust svo hann verður eðlilegur í munni leikarans, samt skáldlegur og samt hlaðinn öllum þeim upplýsingum sem á þarf að halda… Svo rafmagnaður að innri spenna byggist upp.

Hávar Sigurjónsson, Morgunblaðinu
Íslands þúsund tár, leikrit 2002

Elísabet Jökulsdóttir skáld vílar ekki fyrir sér að kryfja sjálft þjóðarsjálfið í þessu leikverki sínu. Hér er þjóðarvitundin, hópsjálfsmynd okkar Íslendinga, til umfjöllunar og hvernig hún er notuð til að innræta þegnunum ákveðinn þankagang.



Elísabet er svo heppin að hún sér hlutina frá öðru sjónarhorni en því hefðbundna – staðreynd sem er forsendan fyrir því að hún geti bent okkur á eitthvað sem við hin komum ekki auga á hjálparlaust.



Hún hefur sýnt og sannað í verkum sínum að hún er fjölhæfur höfundur sem tekur sífelldum breytingum. Ljóð, leikþættir, skáldsögur, örsögur, alltaf er viðfangsefnið ferskt, efnistökin nýstárleg og vald hennar á tungumálinu aðdáunarvert.



Það skiptir öllu máli að henni liggi eitthvað á hjarta, annars verður útkoman bara tæknilegar fingraæfingar – þegar henni er mikið niðri fyrir verða til frábær verk í tilfinningagosi einsog einleikurinn Skilaboð til Dimmu.



Hér er á ferðinni fyrsta leikverk Elísabetar í fullri lengd. Það sýnir að hún hefur þroskast sem höfundur og að henni hefur lærst að skapa lífvænlegar persónur sem eiga rætu að rekja utan hennar eigin sjálfs.



Þungamiðjan í verkinu er enn ég-ið, stúlkan sem er enn leiksoppur hinna fjölskyldumeðlimanna. Í þessu verki er hún þríklofin, sem gefur mikla dramatíska möguleika. Varnarleysi hennar helgast bæði af aldri hennar og kyni. Hennar sýn á þjóðfélagið og fjölskyldu sína er séð frá sjónarhorni þeirrar sem aldrei hefur ráðið neinu um örlög sín, liggjandi á botni táknræns Drekkingarhyls.

Sveinn Haraldsson, Morgunblaðinu
Rúm eru hættuleg

Um þetta smásagnasafn er óhætt að segja að Elísabet skrifar magnaðan texta. … dæmi um stúlkur eða konur í hlutverk mæðra og dætra, þ.e. verndandi eða í leit að vernd, þær elska og hata karlmenn, eru taumlausar og haldnar sektarkennd, óttaslegnar og himinlifandi…

Kristján Jóhann Jónsson, Þjóðviljanum
Rúm eru hættuleg

Tíminn er ekki bein og rökrétt lína (í sögunum), þvert á móti líður hann í alls kyns krókum og slaufum þar sem fortíð og nútíð upphefjast í einum punkti. Stíllinn tekur mið af þessu, hann er með ljóðrænum blæ, mikið um endurtekningar og textinn umbreytist í sífellu.

Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, Morgunblaðið
Sjáðu, sjáðu mig. Það er eina leiðin til að elska mig.

…ferð inní heim sorgarinnar og þunglyndisins…takast á depurðin og vonin, dauðaóskin og lífsþráin, sorgin og skilningurinn… Elísabet notar bæði sterka liti og magnað myndmál til að túlka þessa upplifun… enda þótt mörg ljóðanna túlki dapurlega og martraðarkennda upplifun býr yfir þeim ljóðræn fegurð, ofurlítið súrrealísk en sterk… lífið fær ofurlítinn ljóma… ef til vill er það svo að hinn hreini tónn ljóðsins finnist aðeins við slík átök, við slíka glímu, slíkan sálarháska sem lýst er í sorgarljóðunum. Ég er í það minnsta ekki frá því að Elísabet hafi með bók sinni slegið þannig hljóm. ..Meginstyrkur þessarar ljóðabókar er nefnilega skírslan, hreinsunin, „kaþarsis“ ferðin um undirdjúpin og uppgötvunin mikla um eigið gildi…

Skafti Halldórsson, Morgunblaðinu
Sjálfseyðing – gagnrýni á leiksýningunni The Secret-Face

Ef hægt er væri að segja að Elísabet Jökulsdóttir hefði krufið þjóðarsjálfið í síðasta leikriti sínu sem sett var á svið þá er núna komið að krufningu nærtækara sjálfs. Einleikurinn er fom sem augljóslega stendur hjarta Elísabetar nærri, enda á leikræn einræða margt skylt með þeim nútímaljóðum sem afhjúpa skáldið og ýta því í allri sinni nekt fremst á brún leiksviðsins þar sem almenningur getur grannskoðað innviði þess að vild. Steinunn Knútsdóttir leikstýrði síðasta leikverki Elísabetar Íslands þúsund tár í Nemendaleikhúsinu, og heldur um stjórnvölinn hér jafnframt því að velja hvað hún vill leggja áherslu á úr textanum.



Ætlunin er að sýna verkið hér heima fyrir enskumælandi heimamenn og útlenda ferðamenn og að halda með það í farteskinu í víking á erlenda grundu. Þar af leiðir að höfundur kaus að skrifa verkið á ensku. Orðaforði höfundar og leikni í því máli er mun takmarkaðri en í móðurmálinu sem orsakar einföldun orðræðunnar. Þessi staðreynd er bæði kostur og galli – helsti kosturinn er sá að það er einsog hér sé kjarni málsins alltaf til umræðu einsog skýr og einfaldur og best verður kosið, en jafnframt nær ómögulegt að festa hendur á honum og negla hann niður. Vitundarstreymið fer einhvern veginn fyrir ofan og neðan órætt innra líf persónunnar sem ekki er hægt að tjá með orðum. Í stað þess er veröld líðanarinnar túlkuð í leik. Þó að persónur leikritsins sem hér eru til umræðu séu þrjár þá eru þær allar leiknar af einni og sömu leikkonunni, aðalpersónan – Blind-and Kind woman – með öllum líkamanum en aukapersónurnar tvær – Funeralwoman og Universewoman – með höndum hennar. Þær eru þannig séð viðhengi, bæði sjónrænt og rökrænt. Það mætti kannski líkja þessum tveimur ósjálfstæðu verum við engilinn og púkann sem gjarna fylgja vissum teiknimyndapersónum og tákna þá góða og slæma þætti í sálarlífi þeirra. Þessir fulltrúar góðra og slæmra þátta sjálfsins eru engin tilviljun, verkið er gegnsýrt af vondri samvisku sem persónan þjáist af sem einstaklingur – einsog tilvísanir um samband við giftan mann ýja að eða sem hluti af heild – og er þá rætt um umhverfisspjöll og þjóðarmorð. Aðalpersónan er blind fyrir aðstæðum sem bera hana ofurliði og of góð tilað geta spyrnt við fótum. Afleiðingin er, svo vísað sé í kvimyndaskáldið Fassbinder, að óttinn étur sálina eða í þessu tilfelli að persónan étur sjálfa sig – eyðir sjálfri sér – þegar hún ræður ekki við þær aðstæður sem ístöðuleysi hennar hefur komið henni í. Sjálfseyðingarhvötin er hér afleiðing þess að hafa hvorki stjórn á sjálfum sér né umhverfi sínu sem orsakast af því að geta ekki varað si á því sem ógnar sjálfinu og að kunna ekki setja öðrum mörk sjálfum sér til bjargar.



Þó að textinn minni helst á vitundarstreymi þá er flæðið allt annað en stjórnlaust. Þáttaskilin eru skýr og einsog höfundur bendir á er hægt að marka í verkinu skiptingu í tólf kafla. Endurtekin stef í verkinu og endurteknar gjörðir leikkonunnar tengja mismunandi þætti sýningarinnar saman. Það er endað á byrjuninni eða kannski byrjað á endinum, amk. Er komið aftur að umræðuefni upphafsins í endinum. Ef til vill gengur sýningin í endalausa hringi á meðan persónan bíður eftir að eitthvað gerist og rjúfi þá innri einangrun sem er túlkuð svo eftirminnilega á sviðinu. Steinunn Knútsdóttir leikstjóri hefur hér haft nægt tilefni til að velta fyrir sér þeim möguleikum sem leikritið gefur og móta form sýningarinnar með leikrænni útfærslu á textanum og þeirri sjónrænu sýn sem hann blés henni í brjóst.



Henni til aðstoðar er fáliðaður her útvalinna sem skilar einstaklega vönduðu verki. Svo fyrst sé vikið að búnaði leikkonunnar í sýningunni kemur helst uppí hugann búningur Filippíu Elísdóttur sem vísar m.a. í fótabúnað dauðu nornarinnar í kvikmyndinni um Galdrakarlinn í Oz og mjaðmaauka Marie Antoinette auk áhrifamikillar förðunnar. Einnig má nefna viðmikla hárkollu úr smiðju Jóns Atla og Katrínar Thors. Ytri búnaður sýningarinnar er hannaður af Árna Páli Jóhannesssyni en honum til aðstoðar við brellur eru Eggert Ketilsson og Harrý Jóhannesson. Hilmar Örn Hilmarsson sér um að hanna hljóðmynd sýningarinnar og styðst ma. við píanóstef Uglu Hauksdóttur. Allt er þetta fyrsta flokks og fellur einsog flís við rass við heildarsýn leikstjórans.



Pálína Jónsdóttir sýndi hver henni er tamt að samhæfa leiktúlkun sína við stílfærðar hreyfingar í aðalhlutverkinu í Fröken Júlíu Strindbergs í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar um árið. Hér mætir hún tvíefld til leiks eftir nokkurt hlé og sýnir að hún hefur notað tímann vel. Hún túlkar þessa þríeinu persónu Elísabetar framúrskarandi vel enda varla annað hægt en að fylla eftirminnilega uppí þá undraveröld sem henni er búin á sviðinu. Raddbeitingin er afar fjölbreytt – skannar allt frá djöfulsetnu stúlkunni í Exorcist til feiminna ræðuhalda. Eini hængurinn á frammistöðu Pálínu er að á stundum er erfitt að greina texta Elísabetar af munni hennar þarsem hann veður að láta undan fyrir fossniði og ómi hljóðfærasláttar. Kannski er þetta með ráðum gert og þá táknrænt fyrir rödd einstaklingsins sem er kæfð af umhverfishávaða nútímans. Það væri ekki úr vegi þarsem sjálfseyðing aðalpersónunnar er tengd landeyðingu, stríðshörmungum og öðrum óþokkaskap.

Sveinn Haraldsson, Morgunblaðinu
Skáldverk í fiskabúrum

Mér virðist það rökrétt og í samræmi við verk Elísabetar að hún sýni fiskabúr hér á Mokka. Hér vinnur hún með vatnið sem er henni svo kært og blandar því saman við því kunnuglega eða raunverulega sem við þekkjum: gullfiskum í gullfiskabúrum og hinu ímyndaða: með því að skapa heim ofan í fiskabúrunum sem við ekki að venjast á slíkum stað. Í sumum verkum Elísabetar er stíllinn einmitt líkastur vatni: flæðandi. Stundum líkastur stórflóði (sjálf sagði hún við mig eitthvað á þessa leið: Ég oft of orðmörg, á í vandræðum með að hemja orðin.) flæðandi stíll einkennist m. a. af sífelldum endurtekningum, hugflæði og hugrenningatengslum. Hann er vandmeðfarinn, frábær þegar vel tekst til, orðavaðall þegar ill tekst til. Það er snjallt hjá Elísabetu að taka eitt uppáhaldsfrumefnum sínum, hemja það innan fiskabúra og skálda síðan í þau. Við skulum bara vona að hún kveiki ekki í öllu saman.

Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur

Þú hefur gott formskyn.

Guðbergur Bergsson, rithöfundur

Þín sterkasta og veikasta hlið er flæði

Matthías Viðar Sæmundsson