Um mig

Elísabet er fædd 16. apríl 1958 í Reykjavík.

Hún ólst upp útá Seltjarnarnesi.

Hún á þrjá syni og átta ömmustelpur.

Eftir að hafa ort ljóð í mörg ár kom hún fram af nokkurri alvöru á ritvöllinn árið 1987 með leikritinu Eldhestur á ís. Þar segir frá ástarkrísu tveggja persóna sem eru partar af sömu persónunni. Þriðja persónan er Glerbúinn, hún býr í glerkúlu en viska hennar virðist koma langt að en hinar heyra ekki í henni.

Skáldskapurinn birtist Elísabetu sem ólíkindatól. Einu sinni hafði hún legið í sófanum heilan vetur og heyrði öðru hverju bankað bylmingsfast á útihurðina. Það endaði með því að hún fór til dyra og þá stóð þar skáldsagnapersóna fyrir utan. Vörðurinn í sögunni Heimsóknartíminn.

Einu sinni fór hún til Sýrlands, sýrlenskur leiðsögumaður fór þess á leit við hana að hún orti friðarljóð handa Sýrlendingum, hún efaðist um hæfni sína í þeim efnum, en þegar hún var gengin til náða á hóteli í Damaskus er einsog veggirnir brotni og í herberginu sínu á tólftu hæð heyrir hún móður sína gráta. Hún ætlaði að fara á fætur og hugga móður sína sem hún vissi að var á hæðinni fyrir ofan þegar það rann upp fyrir henni að þetta var ljóðið að brjótast fram.

Þegar móðir mín grætur
ríkir friður
þegar andlit hennar er orðið að steini
er stríðið byrjað.

Í Kristnihaldi undir Jökli er það Umbi sem er skáldið, biskupinn sem sendir hann er kannski skáldskapurinn sjálfur. Umbi er sendur út af örkinni til að kynna sér starf og háttalag prestins undir jökli en á þeim bæ þykir ekki allt með felldu. Þá fer atburðarás í gang sem umboðsmaðurinn ræður ekki við, lífið er of skrítið og að endingu týnist sendillinn. Það eru takmörk fyrir hvað er hægt að ráða við, einsog í lífinu sjálfu. Og skáldskapnum. En samviskusemi sendilsins hefur allt að segja. Það er að segja hann verður að skrá allt niður. Einn frægasti sendill sögunnar var Ódysseifur. Sendur í stríð. En þess má geta að fyrsta starf Elísabetar var einmitt sendilstarfið og henni finnst rithöfundurinn vera sendill sem stundum týnist á leiðinni, eða tefst, tapar póstinum, finnur miða í ræsinu, sér skilaboð á flettiskilti, ratar nýja leið eða gamla.

Eitt af viðfangsefnum Elísabetar hefur verið klofningurinn í sálinni, allir partar manneskjunnar sem berjast og sættast, kannski byrjar stríðið í heiminum í höfðinu á einni manneskju, innilokun og lásasmíði - persónur hennar loka sig inni eða úti. Uppá síðkastið hafa ný þemu gert vart við sig, minnið og gleymskan, og skrúðinn sem manneskjan klæðist til að leyna fátækt sinni.

Elísabet lítur á söguna sem rannsóknartæki, skemmtun og andlegan veruleika.

Í verðlaunabók hennar Enginn dans við Ufsaklett eru þessi öfl að verki, konan lokar sig inní sambandinu, kannski til að brjótast út úr því aftur, kannski var hún send svo hún myndi yrkja og skrifa þessa bók, hver sendi hana, guð og hvaða guð, dularfull vitund, vitund hennar sjálfrar eða kannski sjálfur skáldskapurinn?

En hvað sem öllum þessum pælingum líður skrifar Elísabet því þannig er hún hamingjusöm.