Bækur
Rúm eru hættuleg
Sögur
1991
Bókin geymir átta sögur, hún er þroskasaga stúlku frá barnsaldri, um kynni hennar af eigin illsku og örvæntingu, tengslum við náttúruna, baráttu við ísbjörninn, sjúk tengsl við föðurinn og þrá eftir honum, hvernig hún lokast inni í húsum og brotnar í marga parta og þessir partar öðlast sjálfstætt líf, um barneignir og börn sem þurfa ekki annað en að anda þá smellur heimurinn saman, um goðsögnina, um það þegar hún bjargar lífi manns sem hefur beitt hana ofbeldi og um stólinn sem hún getur ekki staðið upp úr.
Teikningar: Sara Vilbergsdóttir
Kápa: Snorri Ægisson
Kattahirðir í Trékyllisvík
Ljóð
2011
Hvað var ég að gera norður á Ströndum? spyr skáldið og kemst að því að þar hafi hún orðið skáld. Hún fór þangað á unglingsaldri, sauð hafragraut, veiddi ísbjörn og gekk á rekann. Og auðvitað var hún að elta strák. Löngu seinna kemur hún og ljóðin þyrpast að. Ljóð um tímann og náttúruna. Og stúlkuna. Gefin út í tilefni af 25 ára útgáfuafmæli Elísabetar.
Teikningar: Elísabet Jökulsdóttir
Kápa: Helgi Hilmarsson
Sjáðu, sjáðu mig. Það eina leiðin til að elska mig
Ljóðabálkur
1995
Ljóðin kviknuðu eftir snjóflóðin á Flateyri og Súðavík og fram braust konan í öllu sínu veldi sem hafði verið kaffærð af samfélaginu, brjáluð kona, kona sem söng og var með lóu á hverjum fingri, kona sem þráði grænan kjól og fá að vera í ljósinu. Kona sem vildi koma til jarðarinnar eftir að hafa flúið þaðan.
Kápa: Elísabet Jökulsdóttir
Dans í lokuðu herbergi
Ljóð
1989
Bókin skiptist í fimm kafla, innra líf barnsins, dansinn, ástina, skrítinn prívatheim stúlkunnar og fólkið í kringum okkur.
Kápa: Elísabet Jökulsdóttir
Sagan af Aðalheiði og borðinu blíða
Saga
1998
Eins konar þjóðsaga um barn sem bankar upp á hjá ókunnugum, leggur á borð, eldar kjötsúpu og hoppar svo inn í logann. Sagan er margræð, er verið að sjóða mann í pottinum, er þetta byrjun á maníu þegar barnið hoppar inn í logann? Verður hún eldinum að bráð eða endurfæðist hún? Fyrst og fremst er þetta saga um heimsókn, barn sem kemur í heimsókn.
Teikning: Gunnhildur Una Jónsdóttir
Kápa: Snorri Ægisson
Englafriður
Ljóð
2004
Ljóð frá Sýrlandi og Líbanon, um stríðið, friðinn, um leyniskyttur í rústunum og leyniskyttur sem skjóta á hjartað.
Kápa: Birgitta Jónsdóttir
Fótboltasögur
Örsögur
2001
Höfundur hittir nuddarann í meistaraflokki sem sonur hennar leikur með. Hann spyr hana hvernig hún skrifi og um hvað, hvernig sögurnar fæðist. Hún segir honum að vera ekki að skrifa um tilgang lífsins eða eitthvað háfleygt heldur skrifa um það sem hann er með í höndunum. Svo fór hún heim og skrifaði sögu um fótboltamann á nuddbekknum. Það kom í ljós að nuddarinn hafði engan áhuga á skáldskap en sögurnar héldu hins vegar áfram að streyma úr höfundinum, um fótboltann í allri sinni dýrð.
Kápa: Snorri Ægisson
Ísbjörninn á Hótel Viktoría
Minningabók
2006
Minningar um föður höfundar, rifjaðar upp að ráði barna hennar, svo hún geti grátið föður sinn, „Hugsaðu um allt það góða ... og þá geturðu grátið ...“
Síðan þessi kona varð trúuð hefur hún verið til vandræða í húsinu
Nóvella
2005
Kona sem fer mikið út í byggingarvöruverslun því hún er að gera upp húsið sitt, eða er hún að gera upp húsið sitt? Hún biður um mold á gólfið, vill hafa för eftir hnén í moldinni og grætur í förin. Hún nær sérstöku sambandi við einn afgreiðslumanninn í versluninni og enginn veit hvað varð um hann að lokum.
Kápa: Birgitta Jónsdóttir
Heilræði lásasmiðsins
Ævisaga
2007
Saga um ástir og kynlíf, svartan mann og hvíta konu, trommuleikara og skáld, hvernig fortíðin æðir inn í framtíðina hafi hún leyfi til þess. Þrá eftir að skilja sjálfan sig gengur í gegnum söguna.
Kápa: Svavar Pétur Eysteinsson
Laufey
Nóvella
1999
Laufey býr í fátækrahverfi í Reykjavík, passar litlu systur sína sem deyr með dularfullum hætti, Laufey er líka ástfangin í Þ. en hann er að skipuleggja að nauðga henni. Sagan hverfist um þau tvö en heilt persónugallerí kemur við sögu og íslenski fáninn.
Málverk á kápu: Hulda Vilhjálmsdóttir
Kápa: Snorri Ægisson
Lúðrasveit Ellu Stínu
Örsögur
1996
63 örsögur um hvað fólk er skrítið í einkaheiminum sínum. Það er ekki fyrr en fólk segir frá að það hættir að vera skrítið og verður venjulegt. Því þá kemur í ljós að allir eru skrítnir.
Teikningar: Elísabet Jökulsdóttir
Kápa: Haraldur Jónsson
The Secret – Face
Leikrit
2004
Einleikur fyrir leikkonu sem hefur persónur í báðum höndum og fugla í augunum, konan lætur jarða sig tólf sinnum því hún elskar að láta jarða sig.
Kápumynd: Jökull I. Elísabetarson
Kápa: Jón Óskar
Anna á Eyrarbakka
Nóvella
2015
Anna fer á Eyrarbakka til að skrifa um kvíðann, þá bankar lítil stúlka, Guðrún, upp á með eyra á bakka. Heimsókn Guðrúnar minnir á heimsókn Aðalheiðar í þeirri sögu, hvað hafa börn að segja okkur, þau draga með sér furðulegan týndan heim, töfra og píningar, afskorið eyra, og í þessu eyra heyrist um heim allan einsog í Völuspá.
Teikningar: Jóhanna Líf Kristjónsdóttir, Unnur Þóra Jökulsdóttir, Elísabet Jökulsdóttir
Kápa: Jón Óskar
Bænahús Ellu Stínu
Bænabók
2009
Bænir og hugleiðingar um æðri mátt, daglegt líf, kærleikann, andlega vakningu, minningar, að vera barn eða fullorðinn.
Kápa: Jón Óskar
Galdrabók Ellu Stínu
Örsögur
1993
Geymir 52 örsögur en höfundur byrjaði að skrifast á við barnið í sér sem vildi ekkert við hana tala, sama hverju hún bryddaði upp á. Barnið sagðist hata hana og allt sem hún kom nálægt. Það var ekki fyrr en höfundur stakk upp á því að barnið segði henni sögu, þá braust fram saga og eftir það var sögumaðurinn óstöðvandi.
Teikningar: Jökull I. Elísabetarson, Elísabet Jökulsdóttir
Kápa: Snorri Ægisson
Heimsóknartíminn
Nóvella
2010
Kona hefur dvalið inni í herbergi í 30 ár eða síðan hún var lokuð inni á Kleppi, einn daginn kemur vörður og segir henni að hún fái nú tólf heimsóknir svo hún komist út úr herberginu.
Kápa: Jón Óskar
Hringavitleysusaga
Satíra
2003
Kárahnjúkavirkjun og eyðileggingin í kringum hana olli miklu umróti á Íslandi. Hringavitleysusaga segir frá þúsund ára gömlu fólki, sveitastelpunni, lómnum, Disnei-barninu, Forneskjunni, konunni sem hefur tvö andlit og skessunni Háspennumöst.
Músin sem flaug á skottinu
Barnasaga
2012
Músin er innilokuð í holunni sinni en dreymir þrjá drauma, í draumnum kemur mús til hennar og hjálpar henni að komast út úr holunni, að lokum kemst hún út og fyrir utan hittir hún fugl sem stingur upp á að hún fari í frí.
Teikningar: Jóhanna Líf Kristjónsdóttir
Kápa: Jón Óskar
Enginn dans við Ufsaklett
Ljóð
2014
Ljóð um skaðlegt samband þar sem ástinni er flaggað í því skyni að stjórna og meiða, heimilisofbeldi, en sagan er líka um konu sem er að skoða myndina af sjálfri sér og gerir það í gegnum ljóðin, ljóðin reynast frelsandi afl, dyr út í nýjan heim – eða er sá heimur nýr? Eða einsog segir í bókinni: „ljóðin bera hana út úr eldinum“.
Teikningar: Elísabet Jökulsdóttir
Kápa: Jón Óskar
Vængjahurðin
Ljóð
2003
Yfir hundrað ástarljóð. Um þrána, þrána eftir að elska.
Kápa: Jón Óskar